Alta heldur námskeið um QGIS þar sem reynt er að hjálpa nemendum að komast yfir byrjunarhjallann.
Landupplýsingar eru að mörgu leyti sérstakar og sérhæfðar og því mikilvægt að fá góðar útskýringar á grundvallaratriðum strax í upphafi.
Mikilvægt er að þátttakendur haldi áfram að loknu námskeiðinu að tileinka sér aðferðir og viðmót forritsins til að ná betri tökum. Margs konar annað kennsluefni er að finna á vefnum, sjá nánar hér.
Þátttakendur sem taka þátt á fjarfundi fá senda vísun á fjarfund daginn fyrir námskeiðið. Aðrir taka þátt í skrifstofu Alta að Ármúla 32 í Reykjavík, 2. hæð til vinstri.
Kennslan hefst kl 9 og stendur til kl 16. Við tökum hádegishlé 12-13 og þá er þeim sem koma til okkar í Ármúla velkomið að fá snarl með okkur í hádeginu.
Þetta á við um almenn námskeið en annað fyrirkomulag getur átt við á sérsniðnum námskeiðum.
Áður en námskeiðið hefst þurfa þátttakendur að setja upp forritið. Það er sótt með því að fara á https://qgis.org og smella á "Download". Þá opnast síða þar sem hægt er að sækja forritið fyrir WIndows, Mac OS og Linux.
Þátttakendur þurfa að muna að koma með spennugjafa (hleðslutæki) á námskeiðið því tölvan er notuð allan daginn.
Það er líka mikilvægt að vera með venjulega mús með músarhjóli vegna þess hvernig viðmót forritsins er notað.
Við mælum með nokkrum breytingum á grunnstillingum eftir uppsetningu. Farið er yfir þessar stillingar á námskeiðinu, en þær má líka sjá hér.
Eins og fram kemur á námskeiðinu er auðvelt að finna umfangsmikil opin gögn um staðhætti, innviði, náttúrufar og margt fleira til að vinna úr. Til þess að flýta fyrir fá þátttakendur gagnapakka með sýnishornum til að spreyta sig á meðan á námskeiðinu stendur en mikilvægt að athuga að gögnin geta verið úrelt og þau ná yfir takmörkuð svæði sem eru valin af handahófi. Námskeiðsgögnin nýtast því ekki til neins annars en æfinga.
Gögnin eru sótt með því að smella hér.
ATHUGIÐ: Gagnamappan er ZIP-þjöppuð. Þegar hún er opnuð sést mappa sem heitir "gogn" og þá möppu þarf að draga yfir á heppilegan stað á diski tölvunnar. Það gæti til dæmis verið mappa sem þú býrð til fyrir námskeiðið á desktop eða öðrum heppilegum stað. Ekki er hægt að nota þjöppuðu gagnamöppuna.
Áður en þátttakendur koma á námskeiðið þurfa þeir að:
Setja upp forritið
Sækja gögnin og koma þeim fyrir "afþjöppuðum" á góðum stað
Muna eftir hleðslutæki fyrir tölvuna
Muna eftir venjulegri mús með hjóli
ATHUGIÐ: Þeir sem taka þátt gegnum fjarfundabúnað (Zoom, Meet, Teams o.þ.h.) þurfa að hafa tvo skjái, annan til að fylgjast með kennslunni og hinn til að nota QGIS.